Fótbolti

Hierro styður Aragones

Luis Aragones
Luis Aragones AFP

Fernando Hierro, sem í gær var formlega ráðinn framkvæmdastjóri spænska knattspyrnusambandsins, hefur lýst yfir stuðningi sínum við Luis Aragones landsliðsþjálfara.

Hierro var strax spurður að því hvort hann ætlaði að beita sér fyrir því að Raul yrði kallaður aftur inn í landsliðið. "Ég á mjög gott samstarf við Aragones en ég mun ekki skipta mér að því hvort hann velur vin minn Raul í landsliðið. Það er ekki mitt hlutverk að skipta mér beint af því hvernig landsliðinu er stjórnað og Luis er alráður í þeim efnum," sagði Hierro.

Aragones hefur verið harðlega gagnrýndur á Spáni síðustu misseri og hafa fjölmiðlar hvað eftir annað óskað eftir því að hann segði af sér. Því hefur líka verið haldið fram að Hierro hafi rætt við Vicente del Bosque um að taka við liðinu.

"Aragones er númer eitt og ég hef ekki rætt við neinn annan. Það mikilvægasta fyrir okkur í augnablikinu er að einbeita okkur að liðinu sjálfu og að komast áfram á EM," sagði Hierro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×