Enski boltinn

Tek ekki við liði á Englandi - strax

Mourinho er líklega ekki búinn að opna sína síðustu kampavínsflösku á Englandi
Mourinho er líklega ekki búinn að opna sína síðustu kampavínsflösku á Englandi NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho hefur útilokað að taka strax við nýju liði á Englandi eftir að hann hætti hjá Chelsea. Hann vill breyta til og fara til annars lands fyrst um sinn, en segist vel geta hugsað sér að snúa aftur til Englands.

"Ég mun snúa aftur til Englands en ég vil ekki að það verði næsta skrefið hjá mér. Það verður að vera annað land, annar bolti - önnur reynsla. Ég er bara 44 ára gamall og vona að ég muni eiga nokkur ár í viðbót á Englandi. Ég elska enska boltann," sagði Mourinho.

Hann útilokar líka að taka við portúgalska landsliðinu. "Ég vil ekki taka við portúgalska landsliðinu og vil að það komi mjög skýrt fram. Ég vil að Scolari (landsliðsþjálfari) fái frið til að vinna vinnu sína og þurfi ekki að vera að horfa um öxl og bíða eftir því að ég komi og taki starfið hans. Þetta á ekki bara við um landsliðið - heldur félagslið í Portúgal líka," sagði Mourinho og er þá búinn að þrengja hringinn nokkuð þegar kemur að næsta starfi.

Mourinho talar ensku, spænsku og frönsku og segist vilja læra nýtt tungumál á meðan hann ákveður næsta skref á ferlinum. "Ég verð að velja milli þýsku og ítölsku," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×