Innlent

Útlendingum sem taka húsnæðislán fjölgar

Á þriðja hundrað útlendinga tóku húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði í fyrra. Þetta eru tæplega helmingi fleiri útlendingar en árið 2005.  Íbúðalánasjóður reiknar með að þeim fjölgi enn meira á næstu árum.  

 Allir útlendingar sem hafa skráð lögheimili og kennitölu hér á landi geta fengið húsnæðislán.   Árið 2005 tóku 125 útlendingar húsnæðislán frá Íbúðalánasjóði og var það 1,57% af  heildarfjölda lántakenda.  Í fyrra tóku 263 útlendingar húsnæðislán hjá íbúðalánasjóði og var það 4,3% af heildarfjölda lántakenda. Þessar tölur sýna einungis þann fjölda útlendinga sem hafa erlent ríkisfang. 



Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði kaupa útlendingar vítt og breitt um landið en á höfuðborgarsvæðinu eru íbúðir mikið keyptar í Efra Breiðholti. Þá eru Pólverjar og fólk frá Austur Evrópu langstærsti hópur kaupenda. 



Hallur Magnússon sviðsstjóri þróunarsviðs hjá Íbúðalánasjóði segir að þeir útlendingar sem hafi komið hingað til lands fyrir tveimur til þremur árum kaupi sér íbúðir núna.  Útlendingum sem taki húsnæðislán fjölgi  enn meira á næstu árum.  Hallur segist geta fullyrt að svo lengi sem útlendingar hafi áhuga á að kaupa íbúðir hér á landi fari fasteignamarkaðurinn að minnsta kosti ekki niður. Þess ber að geta að greiningardeildir bankanna telja að aukið líf sé að færast í fasteignamarkaðinn og miklar líkur séu á að hann dragist ekki saman á næstu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×