Fótbolti

Án Eiðs Smára í þriðja sinn

Verður ekki með gegn Svíum annað kvöld.
Verður ekki með gegn Svíum annað kvöld. fréttablaðið/daníel

Íslenska landsliðið hefur aðeins tvisvar sinnum verið án Eiðs Smára í keppnisleik undanfarin átta ár en stjarna íslenska landsliðið verður fjarri góðu gammni í næsta landsleik. Eiður Smári átti mjög slakan leik gegn Liechtenstein og hefur nú leikið í yfir 500 mínútur án þess að skora með landsliðinu.

Íslenska landsliðið mætir því aðra undankeppnina í röð til Stokkhólms án fyrirliða síns en Eiður Smári fékk sitt annað gula spjald í undankeppninni í jafnteflinu á móti Liechtenstein um síðustu helgi. Eiður Smári var einnig í banni í útileiknum á móti Svíum í undankeppni HM 2006 en sá leikur fór fram í október 2005.

Í síðustu undankeppni missti Eiður Smári einmitt af útileikjum gegn "bestu" þjóðunum það er þjóðunum sem enduðu í efstu tveimur sætum riðilsins. Nú missir hann af útileik gegn Svíum sem eru einmitt í efsta sæti íslenska riðilsins. Eiður Smári er búinn að fá fjögur gul spjöld í síðustu tíu leikjum og öll fyrir mótmæli eða að sparka boltanum í markið eftir búið var að dæma hann rangstæðan.

Eiður Smári missti af útileik í Króatíu 26. mars 2005 vegna meiðsla. Heiðar Helguson var þá einn í framlínu íslenska liðsins en Arnar Þór Viðarsson, Gylfi Einarsson og Jóhannes Karl Guðjónsson voru fyrir aftan hann á miðjunni. Íslenska liðið tapaði leiknum 0-4.

Eiður Smári missti einnig af útileik í Svíþjóð 12. október 2005 en sá leikur tapaðist 1-3. Heiðar Helguson var í framlínunni ásamt Gunnari Heiðari Þorvaldssyni en þeir eru hvorugir með í leiknum á miðvikudagskvöldið.

Markaleysi fyrirliðans er farið að dragast á langinn og það verður fróðlegt að sjá hvernig sóknarleikurinn verður gegn Svíum í Solna. Eiður Smári hefur ekki skorað í síðustu fimm landsleikjum og er án marks í samtals 503 mínútur í íslenska landsliðsbúningnum. Síðasta mark hans kom í fyrri hálfleik í 3-0 sigri á Norður-Írum 2. september 2006 og síðan þá hefur íslenska liðið aðeins skorað 2 mörk í fimm leikjum og bæði voru þau skoruð af miðjumönnum, Arnari Þór Viðarssyni og Brynjari Birni Gunnarssyni.

Íslenska liðið verður væntanlega aðallega í varnarhlutverki í Svíþjóð og Eiður Smári hefði væntanlega þurft að sætta sig við mikil hlaup og verkefnið því allt annað en eitthvað draumahlutverk. Það er líklegast að Hannes Þ. Sigurðsson komi inn í byrjunarliðið í hans stað enda er hann sterkur í loftinu og góður í að halda boltanum upp á toppnum.

Það verður hins vegar meira spennandi að sjá hvernig Eyjólfur stillir upp mönnum á miðjunni sem að öllum líkindum inniheldur fimm menn að þessu sinni.

ooj@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×