Innlent

Vatnsréttindi framseld til Landsvirkjunar rétt fyrir kosningar

Sighvatur Jónsson skrifar

Meirihluti vatnsréttinda í neðri Þjórsá var framseldur til Landsvirkjunar nokkrum dögum fyrir kosningar. Fráleitt er að gera slíkt samkomulag án samþykkis Alþingis, segir meðlimur í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, og bætir við að verknaðurinn sé siðlaus.

Undanfarið hafa staðið yfir viðræður milli Landsvirkjunar og landeigenda vegna þriggja virkjana í neðri Þjórsá. Tekist hefur verið á um virkjanaáætlanir og vatnsréttindi á svæðinu.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 voru 93 prósent vatnsréttinda ríkisins í neðri Þjórsá, framseld tímabundið til Landsvirkjunar skömmu fyrir kosningar. Samkomulag þessa efnis var undirritað 5. maí af forstjóra Landsvirkjunar og þáverandi ráðherrum þriggja ráðuneyta; iðnaðar-og viðskipta-, landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis.

Samkomulagið var í kjölfarið kynnt ásamt minnisblaði í ríkisstjórn, en viðræður ráðherra og Landsvirkjunar hófust í nóvember í fyrra.

Margrét Frímannsdóttir, meðlimur í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, gagnrýnir fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnir fyrir að segja að málið sé hjá landeigendum og Landsvirkjun. Ríkisstjórnin hafi haft möguleika á því að lægja öldurnar þessu mikla deilumáli, og gera það í samstarfi við sveitarstjórnarmenn, heimamenn og Landsvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×