Innlent

Nauðgunarmáli vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu

Lögmaður konu sem var nauðgað fyrir fimm árum hefur vísað máli hennar til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem ríkissaksóknari neitaði endurupptöku málsins vegna sönnunarskorts. Konan þurfti að gangast undir lýtaaðgerð á kynfærum eftir nauðgunina.

Tæplega þrítugur íslenskur karlmaður nauðgaði 19 ára stúlku á Píanóbarnum og á heimili sínu í nóvember árið 2002. Maðurinn hafði sett lyf í glas hennar þannig að hún mundi ekki eftir atvikinu.

Daginn eftir fór hún rakleiðis á neyðarmóttöku nauðgana. Stúlkan hlaut það mikla áverka að hún þurfti að gangast undir lýtaaðgerð á kynfærum. Málið var kært til lögreglu en eftir rannsókn málsins var ekki gefin út ákæra vegna sönnunarskorts.

Í fyrra leitaði hún aðstoðar hjá Atla Gíslasyni lögmanni um endurupptöku málsins með vísan til nýrri gagna um andlegar og líkamlegar afleiðingar nauðgunarinnar.



Rök ríkissaksóknara voru þau að ný gögn sem lögð voru fram í málinu þóttu ekki varpa skýrara ljósi á það sem raunverulega gerðist í samskiptum hennar og mannsins.



Atli hefur vísað málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu og hefur málið verið tekið fyrir þar. Hann segir skilgreiningu laganna einblína of mikið á verknaðarlýsingu. Það þurfi að vera ofbeldi eða hótun um slíkt svo sakfellt verði í málum.



Konan er í dag 24 ára og hefur verið óvinnufær eftir nauðgunina. Ríkissaksóknari vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×