Enski boltinn

Torres: Fabregas lokkaði mig til Englands

AFP

Spænski framherjinn Fernando Torres sem nýverið gekk í raðir Liverpool fyrir metfé, segir að félagi sinn Cesc Fabregas í spænska landsliðinu hafi sannfært sig endanlega um að flytja til Englands. Hann segist einnig hafa fengið tækifæri til að ganga í raðir Arsenal fyrir nokkrum árum.

"Cesc hefur slegið í gegn hjá Arsenal og eftir að ég hafði rætt við hann nokkrum sinnum hugsaði ég með mér - af hverju ætti ég ekki að geta spila þar líka? Hann sagði mér að lykillinn að því að ná árangri væri að verða ekki örvæntingarfullur þó blési í móti. Ég geri mér grein fyrir því að það verður ekki auðvelt fyrir mig að fóta mig á Anfield fyrstu mánuðina en ég er staðráðinn í að sigrast á hverri hindrun," sagði Torres og bætti við að til greina hefði komið að hann færi til Arsenal líka á sínum tíma.

"Eftir að við urðum heimsmeistarar unglinga árið 1999 var nafn mitt oft sett í samhengi við stór félög. Ég fékk nokkur tilboð - líka frá Arsenal - en á þeim tíma var ég ánægður hjá Atletico Madrid," sagði Torres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×