Enski boltinn

Leikmenn keyptir fyrir 65 milljarða

Fernando Torres var eitt stærsta nafnið á útblásnum leikmannamarkaðnum í sumar
Fernando Torres var eitt stærsta nafnið á útblásnum leikmannamarkaðnum í sumar NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnufélögin í ensku úrvalsdeildinni hafa aldrei verið eins dugleg að kaupa leikmenn og í ár. Nýtt met var sett í sumar og hafa félögin á Englandi þegar eytt yfir 500 milljónum punda til leikmannakaupa eða um 65 milljörðum króna. Gamla metið frá í fyrra var 300 milljónir punda.

Það er ráðgjafarfyrirtækið Deloiette sem gefur upp þessar tölur og segir helstu ástæðu þessarar gríðarlegu aukningar vera auknar sjónvarpstekjur til félaga í ensku úrvalsdeildinni. "Félögin hafa eytt áður óþekktum upphæðum til leikmannakaupa í ár, en það kemur að sjálfu sér ekki á óvart því úrvalsdeildarfélögin fá um 300 milljónum punda meira í sjónvarpstekjur í ár en verið hefur," sagði talsmaður Deloiette.

Félögin í úrvalsdeildinni eyddu um 140 milljónum punda meira til leikmannakaupa á þessu ári en í fyrra, en þó hafa félögin alls ekki eytt í sömu hlutföllum og tekjur þeirra hafa aukist.

Það var Manchester United sem eyddi mestu fé til leikmannakaupa í sumar eða 51 milljón punda (6,6 milljörðum króna), Liverpool eyddi 50 milljónum punda (6,47 milljörðum króna), Tottenham 40 milljónum punda og nýliðar Sunderland eyddu 35 milljónum punda. Arsenal og Chelsea fengu hinsvegar um 10 milljónir punda fyrir selda leikmenn.

Tólf félög í úrvalsdeildinni eyddu meira en 10 milljónum punda til leikmannakaupa í ár á meðan aðeins þrjú félög eyddu svo miklu fyrir síðustu leiktíð (Tottenham, Chelsea og Liverpool).

Um helmingurinn af þeim 500 milljónum punda sem úrvalsdeilarfélögin eyddu í sumar fór til félaga utan Englands. Félögin á meginlandi Evrópu hafa líka verið duglegri að eyða en hingað til og þar var Real Madrid fremst í flokki með um 80 milljón punda eyðslu til leikmannakaupa. Barcelona og Atletico Madrid komu næst með um 50 milljón punda eyðslu.

Spænska deildin var sú sem komst næst ensku úrvalsdeildinni í eyðslu, en var þó aðeins hálfdrættingur með um 250 milljón punda eyðslu. Að lokum má geta þess að félögin í fimm stærstu deildum Evrópu eyddu samtals um 1 milljarði punda til leikmannakaupa - eða tæplega 130 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×