Enski boltinn

Húsleit hjá Newcastle, Portsmouth og Rangers í morgun

Aron Örn Þórarinsson skrifar
NordicPhotos/GettyImages

Lögreglan í Englandi gerði húsleit hjá þremur knattspyrnuliðum í morgun, Newcastle, Portsmouth og Rangers, vegna gruns um spillingu. Lögreglan staðfestir að húsleitir hafi verið framkvæmdar í morgun, en tekur fram að málið tengist ekki skýrslu Stevens lávarðs um ensku úrvalsdeildina.

„Við getum staðfest að við gerðum húsleit hjá þremur knattspyrnuliðum og tveimur einstaklingum vegna gruns um spillingu," sagði talsmaður lögreglunnar. „Þetta er sjálfstæð rannsókn. Þar sem rannsóknin er enn í gangi er ekki viðeigandi að tjá sig meira um málið."

Talsmaður Rangers hefur hinsvegar staðfest að lögreglan hafi haft gert húsleit hjá félaginu í morgun. „Lögreglan bað okkur um að sýna samstarf og það gerðum við. Lögreglan bað okkur um að tjá okkur ekki meira á meðan rannsóknin stendur enn yfir," sagði talsmaðurinn.

Gary Double, upplýsingafulltrúi Portsmouth hefur einnig staðfest að Portsmouth sé viðriðið málið. „Við getum staðfest að lögreglan kom um 10 í morgun. Við höfum verið samvinnufúsir og munum ekki tjá okkur meira um málið," sagði Double.

Að lokum staðfestir lögreglan í Northumbria að húsleit hafi verið framkvæmd í herbúðum Newcastle United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×