Lífið

Þægilegt skal það vera

Anna Margrét Björnsson
Anna Margrét Björnsson

Það er ýmislegt í tísku núna sem hentar ekki beinlínis í vinnunna. Mínístuttbuxur, korselett og gallabuxur með háu mitti eru smart í kokteilboðin eða út á lífið en eru ekki praktískur kostur á skrifstofunni. Það sem er búið að heilla mig sérstaklega í vor eru þessar skemmtilegu útgáfur af stuttum skokkum sem eru frekar lausir í sniðinu og virka bæði einir og sér eða yfir gallabuxur eða leggings.

Víður kjóll er reyndar fullkomið vinnudress þar sem hann getur verið þægilegur, stelpulegur og smart og svo er lítið mál að dressa hann upp með háum hælum eða fallegum skartgripum. Í raun snýst allt um fullkomin hlutföll í sumar, að minnsta kosti þegar það kemur að hversdagslegum klæðaburði. Stuttir kjólar mega ekki líka vera níðþröngir, og eins ef þú ert í níðþröngum „skinny“ gallabuxum er svalt að vera í lausri blússu við. Þröngt, þröngt alla leið gefur frekar til kynna að þú sért að mæta á næturklúbb (eða strippklúbb!) heldur en á skrifstofuna.

Fullkominn kjóll frá French Connection

Skemmtilegur kostur í sumar er svo kjóllinn sem gengur við bókstaflega allt og er lítið annað en síður stuttermabolur. Hvað gæti verið einfaldara en að smeygja þægilegum bol yfir hausinn, með engum smellum, hnöppum, tölum og rennilásum og skella svo sokkabuxum, skóm og fallegri tösku við. Ég á einn svartan sem gegnir öllum hlutverkum: í vinnunni við stígvél, að kvöldlagi við háhælaða skó og breitt belti og ég sé hann líka í anda í sumarfríinu við sandala eða ballerínuskó. Það væri margt vitlausara en að kaupa nokkra einfalda stuttermakjóla eða boli í yfirstærð í sumar og leika sér að því að poppa þá upp með fylgihlutum. En munum, eins og Carine Roitfeld, ritstýra franska Vogue segir í sífellu: því einfaldara, því betra!

PS. Ef síður tískublaða eru skoðaðar er augljóst að augabrúnir kvenna eiga að vera náttúrulegar í sumar, reyndar eins og undanfarin ár. Það er mér algjör ráðgáta hvers vegna aumingja stúlkurnar í Ungfrú Ísland eru plokkaðar svona mikið til og þurfa að bera einhvers konar risa gervileg fyrirbrigði í sáðfrumulíki á annars sætum ofurappelsínugulum andlitunum...






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.