Lífið

Verðlauna gott starf

Frá vinstri Bjarni Torfi Álfþórsson, Eiríkur Hermannsson, Guðlaug Snorradóttir og Hlynur Snorrason.
Frá vinstri Bjarni Torfi Álfþórsson, Eiríkur Hermannsson, Guðlaug Snorradóttir og Hlynur Snorrason. MYND/Valli

Íþróttafélagið Grótta á Seltjarnarnesi hlaut í vikunni foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, árið 2007. Verðlaunin hlaut félagið fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld og Grunnskóla Seltjarnarness. Formaður Gróttu, Bjarni Torfi Álfþórsson, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd samfélagsins á Seltjarnarnesi.

Auk verðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og ein dugnaðarforkaverðlaun. Hin fyrrnefndu hlutu Reykjanesbær, fyrir að styðja við bakið á foreldrastarfi með veitingu styrks til ráðningar verkefnisstjóra foreldraráðs og foreldrafélaga grunnskólanna í Reykjanesbæ og Guðlaug Snorradóttir og starfsfólk nýbúadeildar við Hjallaskóla í Kópavogi, fyrir óeigingjarnt starf í þágu nýbúa.

Verðlaunin sem kennd eru við dugnaðarforkinn hlaut Hlynur Snorrason fyrir forvarnarverkefni í grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

Rúmlega þrjátíu tilnefningar bárust til verðlaunanna að þessu sinni og voru alls tuttugu og fjögur verkefni tilnefnd. Þetta árið var í fyrsta sinn horft sérstaklega til sveitarfélaga og félagasamtaka sem styðja markvisst við foreldrasamtök og foreldra í sínu sveitarfélagi. Aðalmarkmið foreldraverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem unnið er á fjölmörgum sviðum í grunnskólum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.