Lífið

Viðbrögðin komu á óvart

Haukur og Hrafn
Settu upp aðdáendasíðu til heiðurs Magna í gríni en það hefur heldur betur undið uppá sig.
Haukur og Hrafn Settu upp aðdáendasíðu til heiðurs Magna í gríni en það hefur heldur betur undið uppá sig. MYND/Heiða

„Þetta var nú eiginlega hálfgert djók," segja félagarnir Hrafn Áki Hrafnsson og Haukur Már Böðvarsson þegar þeir eru spurðir um aðdáendasíðuna magni-ficent.com sem þeir settu upp til heiðurs Magna Ásgeirssonar.

Aðdáendasíðan hefur verið töluvert til umfjöllunar að undanförnu vegna falsaðrar fréttar um meint samband Magna við Dilönu en þær kjaftasögur fóru á fullt eftir að söngvarinn og Eyrún Haraldsdóttir ákváðu að slíta samvistir.

Félagarnir upplýsa að notendafjöldinn á síðunni hafi fimmfaldast eftir að sambandsslitin urðu opinber. Tenglinum var síðar lokað og segir Haukur að það hafi verið gert að beiðni eins notandans. „Þetta er nú bara hluti af frægðinni og ég held að allir þeir sem ákveða að feta þessa slóð viti af þessari áhættu," segir Haukur spurður um hans viðbrögð við slíkum gróusögum.

 

Vinsældir Magna jukust mikið eftir glæsilega frammistöðu hans í Rock Star: Supernova-raunveruleikaþáttunum en vinirnir segjast ekki hafa verið miklir aðdáendur söngvarans fyrir það. „Við fylgdumst með Rock Star-þáttunum og settum síðuna upp tveimur vikum fyrir úrslitaþáttinn," útskýrir Haukur en ekki stóð á viðbrögðunum. „Þau komu okkur í opna skjöldu og í dag er síðan með í kringum fjörutíu til fimmtíu þúsund flettingar á dag," bætir hann við en félagarnir segjast hafa tilfinningu fyrir því að gestir síðunnar séu flestir kvenkyns og þeir séu búsettir hér heima, í Bandaríkjunum og Kanada.

Haukur segir að síðan hafi fljótlega breyst í lítið samfélag þar sem aðdáendur söngvarans skiptast á upplýsingum um Magna og spjalla saman um allt milli himins og jarðar.

„Mér skilst að einhverjir hafi hist utan vefsíðunnar og skemmt sér saman," bætir Haukur við og segist jafnframt hafa haft fregnir af því að aðdáendasíðan hafi gefið þeim Rock Star-stjörnum sem komu hingað til lands einhverjar gjafir. „Magni sjálfur er mjög ánægður með síðuna og fylgist grannt með því sem þarna fer fram," útskýrir Haukur og segir þá ósjaldan setja inn fréttir af kappanum sem komnar eru frá honum sjálfum. „Við reynum að standa sem mest fyrir utan og forðumst að stjórna umræðunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.