Innlent

Ungir ökumenn fái aðeins kraftlitla bíla

Nýir ökumenn fá einungis að aka kraftminni bifreiðum á ákveðnum tímum sólarhrings og flytja takmarkaðan fjölda farþega yngri en 20 ára og ökutæki þeirra gætu verið gerð upptæk. Þetta kemur fram í nýjum drögum að frumvarpi samgönguráðuherra um breytingar á umferðarlögum. Þá þarf ökumaður með fjóra refsipunkta að taka námskeið og bílpróf upp á nýtt.

Samgönguráðherra hefur þegar undirritað breytingar sem taka gildi 1. desember og fela í sér hækkun hraðaksturssekta í allt að 110 þúsund krónur og allt að 140 þúsund fyrir ölvunarakstur.

Viðmiðunarmörk vegna hraðaksturs lækka úr tíu í fimm km á klukkustund. Þar sem hámarkshraði er 90km verður nú sektað ef keyrt er á 96km hraða í stað 101km áður.

Ágúst Mogensen formaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa segir ofsaakstur, þar sem menn aka á allt að tvöföldum hámarkshraða, hafa aukist og vera áhyggjuefni. Hann fagnar nýjum drögum samgönguráðherra að frumvarpi sem felur í sér takmarknir á heimild byrjenda til að aka bifreið.

Í þeim felst meðal annars að byrjendur mættu einungis aka á ákveðnum tímum sólarhrings, flytja takmarkaðan fjölda farþega undir tvítugu, takmörkun á krafti bifreiðarinnar og mögulega heimild lögreglu á að gera ökutæki upptæk. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir takmörkunum á útgáfu fullnaðarskírteinis og að bráðabirgðaökuskírteini fyrir byrjendur verði gefin út til þriggja ára, í stað tveggja áður. Á síðustu árum hafa orðið að meðaltali 20-30 banaslys á ári og yfir 100 slasast alvarlega. Þriðjungur banaslysa í umferðinni er af völdum ökumanna yngri en 24 ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×