Erlent

Blair neitar að styðja Brown

Blair brosti sínu blíðasta þegar hann mætti til flokksþingsins í morgun. Hann neitar hins vegar að tjá sig nokkuð um brotthvarf hans úr flokknum eða hvern hann vill sjá sem eftirmann sinn.
Blair brosti sínu blíðasta þegar hann mætti til flokksþingsins í morgun. Hann neitar hins vegar að tjá sig nokkuð um brotthvarf hans úr flokknum eða hvern hann vill sjá sem eftirmann sinn. MYND/AP

Tony Blair, leiðtogi Verkamannaflokksins breska, neitaði á flokksþingi flokksins, sem hófst í Manchester í dag, að lýsa yfir stuðningi við Gordon Brown, fjármálaráðherra. Þrátt fyrir mikinn þrýsting neitaði Blair að ræða brotthvarf sitt úr forystu Verkamannaflokksins en hann hefur lýst því yfir að þetta flokksþing sé hið síðasta sem hann sæki sem formaður.

Blair neitaði að tjá sig nokkuð um forystubreytingar í flokknum og sagði að flokksmenn mættu ekki gleyma sér í að bítast um forystusæti flokksins á kostnað þess að gleyma að stjórna landinu. Hann rómaði Gordon Brown sem prýðisgóðan fjármálaráðherra sem hafi þjónað fólkinu og flokknum með sóma. Hins vegar endurtók hann ekki, þrátt fyrir áskoranir, orð sín um að Gordon Brown yrði "frábær forsætisráðherra".

Hann sagði einungis að hann afneitaði engu því sem hann hefði áður sagt en nú þyrfti að einbeita sér að kjósendum og að framtíð flokksins.

Gordon Brown hefur verið talinn líklegasti eftirmaður Blairs en stuðningsmenn Blairs hafa ásakað hann um að skipuleggja leynt og ljóst hálfgerða uppreisn í Verkamannaflokknum í byrjun mánaðarins sem endaði með því að Blair sá sig tilneyddan að lýsa því yfir að hann myndi víkja úr forystu flokksins í síðasta lagi í september 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×