Erlent

Réttað á ný yfir Guantanamo-föngum

Bandarískir saksóknarar segja að réttarhöld yfir föngum sem haldið hefur verið án dóms og laga í Guantanamo-búðunum á Kúbu geti haldið áfram í byrjun næsta árs. Þeirra á meðal eru skipuleggjendur hryðjuverkaárásanna ellefta september.

Col Davis, yfirsaksóknari bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði í samtali við AP fréttastofuna að hann byggist við að réttarhöldin gætu hafist strax á fyrstu dögum komandi árs. Réttarhöldunum var frestað í júní síðastliðnum þegar hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi það ólöglegt að herréttur réttaði yfir föngunum.

Meðal fanganna eru 14 hættulegustu hryðjuverkamanna sem Bandaríkjamenn hafa haft í haldi og sagði Bush Bandaríkjaforseti í gær að þeir hefðu verið vistaðir í leynifangelsum bandarísku leyniþjónustunnar áður en þeir komu til Guantanamo. Þetta var í fyrsta skipti sem hann viðurkennir tilvist leynifangelsanna en þau komust í hámæli í sumar eftir að nefnd á vegum Evrópuráðsins undir forystu Dicks Martys gaf út skýrslu um þau og samvinnuþýðni nokkurra Evrópuríkja með fangaflug leyniþjónustunnar.

Bush sagði umdeildar yfirheyrsluaðferðir CIA mikilvægar og þær hjálpuðu til við að bjarga mannslífum. Hann sagði að þeir sem best gætu gefið upplýsingar um hvar hryðjuverkamennirnir haldi sig eru hryðjuverkamennirnir sjálfir. Hann þvertók þó fyrir að pyntingar hafi verið notaðar fyrr eða síðar af Bandaríkjamönnum og bætti því við að réttindi allra fanga væru vernduð undir ákvæðum Genfar-sáttmálans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×