Erlent

Kastró stígur af stóli til hvíldar

Bræðurnir Fídel Kastró (t.h.) og Raul Kastró (t.v.) ráða ráðum sínum. Yngri bróðirinn fær nú að spreyta sig við stjórnvölinn.
Bræðurnir Fídel Kastró (t.h.) og Raul Kastró (t.v.) ráða ráðum sínum. Yngri bróðirinn fær nú að spreyta sig við stjórnvölinn. MYND/AP

Fídel Kastró, einræðisherra á Kúbu mun láta tímabundið af leiðtogaembætti Kúbu meðan hann leggst inn á sjúkrahús. Bróðir hans stendur í brúnni á meðan.

Í opnu bréfi til þjóðarinnar, sem ritari leiðtogans las upp í sjónvarpi, segir að Kastró þjáist af blæðandi magasári, vegna mikils álags af því að koma fram opinberlega síðustu vikur, bæði í heimalandi sínu, sem og í opinberri heimsókn í Argentínu.

Fídel Kastró fól yngri bróður sínum, Raul Kastró, stjórnartauma landsins, sem og aðalritaraembætti kommúnistaflokksins, en Raul er einnig varnarmálaráðherra Kúbu. Fídel segist þó munu snúa aftur eftir nokkurra vikna hvíld, en hefur beðið um að hátíðarhöldum vegna áttræðisafmælis síns 13. ágúst verði frestað þar til í desember.

Fídel Kastró hefur setið við völd á Kúbu frá fyrsta janúar 1959, sem er lengri valdatíð en nokkur annar pólitískur þjóðarleiðtogi. Þetta er í fyrsta skipti í rúm 47 ár sem hann felur öðrum stjórn landsins tímabundið. Það að Kastró tilkynni tíðindin ekki sjálfur hefur vakið upp vangaveltur um að ástand hans sé í raun verra en af er látið og að nú gæti dregið til tíðinda á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×