Fótbolti

Með hverjum heldur þú?

Þá er það ljóst, Ítalía Frakkland í úrslitum, verður frábær leikur, vafalaust. Ég hef haft gaman af því að lesa skoðanir hinna ýmsu leikmanna hér á hmvefnum, þar snýst allt um hver heldur með hverjum, ef ég segi gott orð um Þýskaland þá á ég hlýt ég að vera í búningnum innanundir í 442 þáttunum. Og svo framvegis. Fótbolti í mínum huga snýst ekki að halda með einu einstöku liði, að vísu betra að vera sæmilega tryggur félagsliði sínu, en með landslið gegnir öðru máli. Ég hef aldrei haldið með einu landsliði í fótbolta, en leyft mér þann munað að hrífast, fylgjast með liðum og leikmönnum af áhuga, taka ástfóstri við þá stundarkorn og hafna þeim svo einsog gömlum kærustum. Fótbolti er íþrótt í að hrífast, ekki spurning um sérstakt trygglyndi þegar kemur að HM að minnsta kosti.

Fabio Cannavaro er einn af ásunum í þessari keppni, það er ljóst, Zidane líka auðvitað, öruggt víti hjá honum á móti Portúgölum, með jógerarnir spretta uppúr HM stokknum, leikaraskapur Portúgalana er tvímælalaust það allra hlægilegasta og um leið leiðinlegasta á þessu móti. Þeir falla einsog lélegir áhugaleikarar um allan völl, heimta víti í tíma og ótíma, vona að þeir komist ekki á pall, tapi 3-0 á laugardaginn, svona lið á ekki skilið að fá verðlaun fyrir eitt eða neitt, frábærir fótboltamenn, en þvílíkt bull.

Þetta verður löng helgi, strax er byrjað að velta vöngum yfir næstu heimsmeisturum, hvorir verða það, hvað þarf til, og svo framvegis. Ég flýg til Berlínar í fyrramálið og við sendum 442 á laugardag og sunnudag út frá Reykjavík og Berlín, þetta snýst ekki lengur að halda með einhverjum, heldur halda hátíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×