Innlent

Sprengt við Háskóla Íslands

Sprengivinna við háskólatorg Háskóla Íslands hefst í vikunni þegar nemendur eru í miðjum prófalestri. Háskólayfirvöld segja ómögulegt að fresta framkvæmdunum fram yfir prófatörnina sem lýkur um miðjan maí.

Framkvæmdirnar hófust fyrir nokkrum vikum og er nú þegar mikil röskun á gönguleiðum á háskólasvæðinu og bílastæðum nemenda. Framkvæmdirnar koma sér verst fyrir nemendur í félagsfræði- og hagfræðideildum í Odda og lögfræðistúdenta í Lögbergi. Samkvæmt tilkynningu frá skólayfirvöldum verður sprengt allt að tíu sinnum á dag, frá átta á morgnana til níu á kvöldin.

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands segir ráðið hafa þrýst á um að nemendur fengju að klára prófatörnina áður en sprengivinnan hæfist. Það hafi þó verið talið ómögulegt miðað við verkáætlun sem gerir ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun 1.des. 2007. Hann segir skólayfirvöld þó hafa komið til móts við þarfir nemenda á annan hátt, meðal annars með góðu upplýsingaflæði til nemenda og með því að auka lestraraðstöðu í byggingum sem eru fjær framkvæmdasvæðinu.

Engin próf eru þó í byggingunum sem liggja að framkvæmdasvæðinu heldur er prófað í KR-heimilinu og í Eirbergi við Landsspítalann. Nemendur sem NFS ræddi við sögðu lesturinn þó ekki hafa raskast mikið vegna hávaða en það gæti þó breyst þegar farið væri að sprengja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×