Innlent

Gagnrýni byggð á öfund

Aðalritstjóri Börsen, stærsta viðskiptablaðs Norðurlanda, segir danska kaupsýslumenn skiptast í tvo flokka varðandi innrás Íslendinga, þá sem sjái tækifæri og hina sem óttist samkeppni. Hann segir gagnrýnina oft byggja á öfundsýki, en hins vegar sé gagnrýni á fjármál hins opinbera réttmæt, þótt hann trúi því að hægt sé að ná mjúkri lendingu.

 

Leif Beck Fallesen var gestur á ársfundi Útflutningsráðs í dag. Hann segir gagnrýni á íslenska fjárfesta í Danmörku skiptast í tvö horn, þá sem sjái tækifæri með nýjum fjárfestum og þá sem óttist að samkeppni aukist og nú síðast á fjölmiðlamarkaði. Hann segir dönsku morgunblöðin þegar farin að óttast fríblaðaútgáfu Dagsbrúnar í Danmörku.

Beck Fallesen segir hins vegar gagnrýni á ríkisfjármálin réttmæta, enda margt þar gagnrýnivert. Hann hafi hins vegar trú á því að það takist að ná mjúkri lendingu og ástandið verði ekki eins og árið 1982 í Danmörku þar sem húsnæðisverð féll um fjórðung í langan tíma og hagvöxtur var nánast enginn. Hann tekur undir að gagnrýnin í Danmörku byggist oft á öfund.

Hann segir íslenska fjárfesta ekki óvinsæla í Danmörku, en menn undrist hvað þeir séu tilbúnir að greiða hátt verð fyrir fasteignir, of hátt að sumra mati. Hvað varðar kaup Íslendinga á rótgrónum dönskum fyrirtækjum eins og Magasin du Nord og Illum, segir hann hinn almenn Dana ekki kippa sér upp við það, en hins vegar hafi þau kaup farið dálítið illa í danska bankamenn og kaupsýslumenn sem lengi hafi reynt að kaupa þessi fyrirtæki.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×