Innlent

Nýtt blað ábyrgra feðra

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Fyrsta jafnréttisblað karla var formlega afhent dómsmálaráðherra í dag. Þetta er málgagn Félags ábyrgra feðra sem fjallar um réttindabaráttu forsjárlausra feðra fyrir jöfnu forræði foreldra yfir börnum sínum.

Fyrsta eintakið var afhent Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra í dag og tók hann við því og skoðaði. Björn hefur stutt við baráttu forsjárlausra feðra og segja félagsmenn hann hafa bætt réttindi feðra í forsjárbaráttu talsvert með lagasetningum í sinni stjórnartíð.

En betur má ef duga skal, segir Gísli Gíslason, formaður Félags ábyrgra feðra. Hann segir forsjárlausa feður flokkaða sem barnlausa einstaklinga í skatta- og bótakerfi ríkisins og þeir verði þannig af barnabótum, vaxtabótum og skattaívilnunum sem barnafólki hotnast. Þó sé forsjárskyldan jöfn og feðurnir þurfi að hafa pláss fyrir börnin í sínu húsnæði, sem þó standi oftast autt, utan tvo daga af hverjum fjórtán.

Gísli segir baráttuna fyrst og fremst vera með hag barnanna fyrir brjósti, því rannsóknir sýni að þau börn sem búi við gott samband og nærveru við bæði móður og föður, þeim vegni best í lífinu. Það sé réttur barna að geta umgengist bæði foreldri jafnt og þeim fyrir bestu.

Hann segir það einnig sjálfsögð réttindi feðra að fá jafnt umgengi á við mæður, svo fremi sem bæði séu hæf foreldri. Annað sé óeðlilegt. Það sé ekki annað en kynbundið ójafnrétti að samkvæmt meginreglu sé gengið fram hjá feðrum við veitingu forræðis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×