Innlent

Gengi bréfa í Kauphöll Íslands hækkaði í dag

Úrvalsvísitalan hækkaði um tvö komma þrjú prósent í dag og virðist sem trú landans á markaðinum hafi aukist eftir annars miklar lækkanir að undanförnu.

Mjög litlar líkur eru á fjármálakreppu hér á landi samkvæmt skýrslu sem hagfræðingarnir Frederic Mishkin, sem sagður er koma til greina sem næsti aðstoðar-seðlabankastjóri Bandaríkjanna og Tryggvi Herbertsson unnu fyrir Viðskiptaráð og kynnt var í New York í gær. Í skýrslunni er farið yfir helstu álitamál varðandi fjármálastöðugleika hins íslenska hagkerfis og fær það góða einkunn. Höfundar segja íslenskt hagkerfi vera ört vaxandi og að fjármálakerfi þess sé sterkt. Þá vísa þeir til þess að þó svo viðskiptahalli sé mikill hafi hagkerfið áður hrist af sér mikinn viðskiptahalla án verulegra áfalla. Markaðurinn virðist hafa brugðist vel við skýrslunni og hækkaði úrvalsvísitalan um rúm tvö prósent í dag. Mest hækkaði gegni bréfa í KB banka eða um rúm fjögur prónsent og gengi bréf í Flögu 3,6 prósent. Þá hækkaði gengi bréfa í FL Group um 2,2 prósent og Landsbankans um tæp tvö prósent. Ekkert fyrirtæki lækkaði þennan daginn og þó markaðurinn sé enn viðkvæmur fyrir fréttum, segja sérfræðingar uppgjör fyrirtækja í Kauphöllinni sýna og sanna að hér sé ekki kreppa á ferðum og bendi ekkert til þess að hún komi á næstunni. Hins vegar sé ljóst að upplýsingaflæði innan fyrirtækja hafi verið ábótavant hingað til, á það hafi réttilega verið bent og að breyting verði þar á að mati sérfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×