Innlent

Prestar taki upp blessunarform fyrir samkynhneigða

Kenningarnefnd Þjóðkirkjunnar leggur til að tekin verði upp sérstök form á blessun staðfestrar samvistar samkynhneigðra para. Tillögur að blessunarformunum voru kynntar á prestastefnu og eru prestar hvattir til að nota þau á næsta ári til reynslu, eða þar til þjóðkirkjan tekur endanlega ákvörðun um hvort eða hvernig hún komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra.

Kenninefnd þjóðkirkjunnar skilaði í dag drögum að ályktun um staðfesta samvist. Hún var unnin eftir að nefnd á vegum forsætisráðherra beindi því til þjóðkirkjunnar að hún vígði samkynhneigða sem hjón. Svokallaðri Helgisiðanefnd var því falið að gera tillögur að blessunarformum til að staðfesta samvist samkynhneigðra og skilaði hún þremur slíkum. Halldór Reynisson, verkefnastjóri á Biskupsstofu, segir að með blessunarformi sé átt við ritúal eða athöfn fyrir þennan þátt.

Tillögurnar eru til kynningar og eru prestar hvattir til að nota formin á næsta ári og greina svo frá reynslunni á prestastefnu 2007. Halldór segir kirkjuna ætla að taka sér tíma til að ákveða hvort hún komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra, þ.e. hvort talað verði um hjónaband þegar samkynhneigðir verða gefnir saman. Ríkið feli kirkjunni að vera aðili að hjúskaparstofnun karls og konu en spurning er hvort kirkjan komi að hjúskaparstofnun samkynhneigðra.

Drögin í dag eru aðeins liður í verkferli sem lýkur þarnæsta haust. Halldór segir að ætlunin sé að málið fari í lýðræðislega umræðu næsta árið, málið komi svo aftur fyrir prestastefnu og leikmannastefnu og loks endanlega fyrir Kirkjuþing 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×