Innlent

Bjartar horfur í efnahagsmálum

Bjartar horfur eru í efnahagsmálum, samkvæmt nýrri skýrslu fjármálaráðuneytis um þjóðarbúskapinn. Ráðuneytið telur nýjar álversframkvæmdir jafnvel rúmast betur í hagkerfinu en þær sem nú standa yfir, svo fremi að þær séu tímasettar rétt.

Hratt mun draga úr spennu í hagkerfinu, meðal annars vegna lækkunar krónunnar, og hraðvaxandi álútflutningur mun snúa við viðskiptahalla og leiða hagvöxtinn á næstu árum.

Hagtölurnar sýna að Íslendingar búa nú við eitthvert mesta góðæri sem yfir landið hefur gengið, tölur um hagvöxt ár eftir ár eru háar, 8,2 prósent 2004, 5,5 prósent í fyrra, 4,8 prósent í ár og spáin fyrir næsta ár gerir ráð fyrir hagvexti upp á 1,8 prósent. Góðærinu hefur fylgt mikill vöxtur einkaneyslu í fyrra og hitteðfyrra, 7,2 og 11,9 prósent, 2,2 prósent í ár en aðeins hálft prósent á næsta ári, þannig að nú er því spáð að hægja muni á neysluaukningunni. Mikil verðbólga, 5,9 prósent á þessu ári, er neikvæðasti þátturinn en gert ráð fyrir að hún minnki niður í 3,5 prósent á næsta. Spáð er að atvinnuleysi muni aukast en að það verði áfram lítið, 2,2 prósent á næsta ári. Og kaupmáttur tímakaups mun halda áfram að aukast, um 0,7 prósent, bæði í ár og því næsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×