Erlent

Sigurvonir Berlusconis bresta

Vonir Berlusconis, forsætisráðherra Ítalíu, um að hnekkja úrslitum þingkosninganna í síðustu viku, urðu að engu í dag. Í ljós kom að óvissuatkvæði eru mun færri en áður var talið. Fjöldi blaðamanna beið eftir Silvio Berlusconi fyrir utan íbúð forsætisráðherra í Róm í dag. Berlusconi var búinn að bóka sig í viðtal - en skipti um skoðun eftir yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins um að einungis væru rúmlega tvö þúsund vafaatkvæði í þingkosningunum. Áður hafði ráðuneytið sagt að þau væru rúmlega 40 þúsund, en 24 þúsund atkvæði skildu hægri og vinstri fylkingarnar að. 40 þúsund atkvæði hefðu því getað skipt sköpum; tvö þúsund atkvæði skipta engu. Í stað þess að mæta í viðtalið ákvað Berlusconi að fara til Mílanó til að fylgjast með knattspyrnuleik AC og Inter. Berlusconi á það fyrrnefnda. Berlusconi kemst vart lengi hjá því að játa sig sigraðan - en hann getur þó glatt sig við að hans menn í AC Milan fóru með sigur af hólmi í fótboltanum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×