Innlent

Á þriðja hundrað björgunarmenn tóku þátt í leitinni

Á þriðja hundrað björgunarmenn leituðu í nótt og í morgun að mönnunum tveimur sem villtust á Langjökli. Gríðarlegur búnaður var notaður við leitina sem alls tók ellefu klukkustundir.

Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út um klukkan ellefu í gærkvöld en þá voru liðnir fjórir tímar frá því mennirnir áttu að vera komnir á áfangastað. Alls tóku tvö hundruð manns þátt í leitinni frá björgunarsveitum í Húnavatnssýslu, Skagafirði, Borgarfirði, Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Eyjafirði, Snæfellsnesi og af höfuðborgarsvæðinu. Byrjað var að leita mannanna í neyðarskálanum á Hveravöllum, í Þjófadölum og í Fjallkirkju. Þegar í ljós kom að mennirnir voru ekki á þessum stöðum var byrjað að leita á suðurhluta Langjökuls þaðan sem þeir höfðu lagt af stað. Alls voru tíu snjóbílar, sextíu vélsleðar og tvær þyrlur, TF LÍF Landshelgisgæslunnar og þyrla varnarliðsins notaðar við leitina. Jón Ingi Sigvaldason, í leitarstjórn Landsbjargar, segir aðstæður hafa verið mjög erfiðar vegna þess hve gríðarlega stórt svæði var um að ræða. Þá var niða myrkur þegar leit hófst sem auðveldaði ekki björgunarsveitum - ekki frekar en slæmt fjarskiptasamband uppi á hálendinu. Þá var kölluð til flugvél flugmálastjórnar sem flaug um svæðið með endurvarpa fyrir talstöðvar Landsbjargarmanna. Eftir mikla og stranga leit, fundust vélsleðar mannanna í Hallmundarhrauni snemma í morgun en mennina sjálfa var þó enn hvergi að finna. Leitarsvæðið var þrengt og slóð vélsleðanna fylgt. Kallaðir voru út sex leitarhundar til viðbótar og eftir nokkrar klukkustundir fann þyrla Varnarliðsins mennina loksins, heila á húfi undir Eiríksjökli. Þá höfðu mennirnir yfirgefið sleðana og gengið nánast alla nóttina, þrátt fyrir að vera ekki vel tækjum búnir, hvorki með gsm síma né GPS staðsetningartæki. Þeir voru þó ágætlega vel klæddir og því ekki kaldir. Mennirnir voru fluttir með björgunarsveit til Borgarness þar sem tekin var af þeim skýrsla. Þeir eru nú komnir til síns heima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×