Innlent

Bækur til varnar

Bandaríkjamenn gáfu Íslendingum í dag fjölda bóka um varnarmál. Sendiherra Bandaríkjanna vonar að bækurnar hjálpi Íslendingum að byggja upp sérþekkingu á varnarmálum sem utanríkisráðherra hefur sagt skorta hér á landi.

Forstöðumaður meistaranáms HÍ í alþjóðasamskiptum segir gjöfina ekki sárabót fyrir brottför hersins.

Sendiráð Bandaríkjanna styrkti í dag þjóðina með bókagjöf á sviði alþjóðamála-, varnar og öryggismála. Það var sendiherrann, Carol van Voorst, sem afhenti gjöfina Landsbókasafni-Háskólabókasafni við hátíðlega athöfn í dag. Gjöfinni er sérstaklega ætlað að efla kennslu í meðal annars varnarmálum í nýju meistaranámi í alþjóðasamskiptum í Háskóla Íslands. Henni er einnig ætlað að efla Alþjóðamálastofnun HÍ sem miðstöð innlendra rannsókna á sviði öryggis og varnarmála.

Okkur skortir tilfinnanlega sérþekkingu á sviði varnarmála til að hafa frumkvæði að tillögum um eigin varnir. Það staðfesti Geir Haarde, utanríkisráðherra, eftir síðustu viðræður við Bandaríkin um varnarmál.

Það má með sanni segja að gjöfin komi á viðkvæmum tíma í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og það var freistandi að spyrja sendiherrann hvort bókagjöfin væri hluti af nýjum tillögum Bandaríkjamanna um varnir Íslands. Sumsé að þeir færu að lesa sér til um varnarmál sér til sjálfshjálpar. Sendiherrann var þó aðeins fáanlegur til að ræða bókastyrkinn sjálfan.

Í dag voru veittar tvö hundruð bækur en sendiráðið mun styðja enn frekar við uppbyggingu þekkingar okkar á varnarmálum með því að bæta við nýútkomnum fræðibókum á hverju hausti.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×