Innlent

Munur á ævilengd karla og kvenna hér á landi minnkar enn

MYND/Einar Örn

Munur á ævilengd karla og kvenna hér á landi minnkar enn. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Þá er Ísland með lægstu tíðni yfir ungbarnadauða í heiminum. Eins og annars staðar í heiminum er meðalævilengd karla á Íslandi styttri en kvenna. Íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 79 ára á meðan konur verða að meðaltali rétt tæplega áttatíu og fjögurra ára, þegar miðað er við meðaltal síðustu ára.

Á undanförnum þremur áratugum hefur dregist talsvert saman með kynjunum í meðalævilengd. Í upphafi áttunda áratugarins var munurinn sex ár hér á landi en er nú tæp fjögur. Svipaða þróun má greina í öðrum Evrópulöndum en munur á ævilengd er þó víðast hvar meiri en hér. Í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar er munurinn minnstur á meðal Íslendinga.

Bæði ungbarna- og burðarmálsdauði hefur verið með eindæmum lítill hér á landi á síðustu árum, og hefur nánast farið minnkandi allt frá sjötta áratuginum, eins og sést á þessari mynd. Burðarmálsdauði er reiknaður sem fjöldi látinna á fyrstu viku að viðbættum andvana fæddum börnum, en hann er nú þrjú komma sex börn af hverjum þúsund fæddum, sem er lægsta tíðni burðarmálsdauða í heiminum.

Ungbarnadauði, sem skilgreindur er sem fjöldi látinna á fyrsta ári af hverjum þúsund fæddum, er sömuleiðis fátíðastur á Íslandi miðað við önnur lönd. Meðaltal undanfarinna fimm ára er tveir komma fimm af hverjum þúsund en hvergi annars staðar er ungbarnadauði nú undir þremur af þúsund. Annars staðar á Norðurlöndunum er hann lægstur í Svíþjóð og Finnlandi, þar sem rúmlega þrjú börn af hverjum þúsund deyja á fyrsta aldursári, en hæstur í Danmörku, eða fjórir komma fjórir einstaklingar af hverjum þúsund. Utan Norðurlandanna er ungbarnadauði nú minnstur í Japan þar sem þrjú börn af hverjum þúsund deyja áður en þau ná eins árs aldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×