Innlent

Líðan sjómannsins sögð góð

Norska selveiðiskipið Plarsyssel.
Norska selveiðiskipið Plarsyssel. MYND/Einar Örn Einarsson

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með veikan sjómann á Reykjavíkurflugvelli á sjöunda tímanum í kvöld. Hann var sóttur í norska selveiðiskipið Polarsyssel norður af Siglunesi en ekki var hægt að lenda fyrir norðan vegna veðurs. Sjómaðurinn er sænskur.

Beiðni um björgun barst um klukkan fimm í morgun og maðurinn sagður fárveikur. Var skipið þá statt 190 sjómílur norður af Skaga. Vegna vonskuveðurs fyrir norðan land var ekki hægt að fljúga til móts við skipið fyrr en um miðjan dag þegar rofaði til. Í milli tíðinni var skipinu siglt eins hratt og hægt var til lands og var það statt 49 sjómílur norður af Siglunesi þegar björgun barst.

Fyrst átti að flytja manninn til aðhlynningar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en það reyndist ekki hægt þar sem þyrlan komst ekki inn Eyjafjörðin vegna veðurs og slæms skyggnis. Stefnan var því tekin á Sauðárkrók þar sem ekki var heldur hægt að lenda vegna veðurs. Því var ákveðið að fljúga með mannin til Reykjavíkur.

Þyrlan lenti við skýli Landhelgisgæslunnar klukkan rúmlega 18 í kvöld. Þaðan var maðurinn fluttur á Landspítala háskólasjúkrahús í Fossvogi með sjúkrabíl.

Samkvæmt heimildum NFS hafði sjómaðurinn misst mikið blóð þar sem blæddi stöðugt úr nefi hans. Þær blæðingar höfðu stöðvast þegar komið var með mannin á slysadeild og samkvæmt upplýsingum hjá vakthafandi lækni er maðurinn nú við góða heilsu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×