Innlent

Bannað að taka myndir í dómshúsum

Bannað verður að taka myndir í dómhúsum, samkvæmt nýju frumvarpi dómsmálaráðherra. Formaður Blaðamannafélagsins segir rétt að gjalda varhuga við þeirri sterku tilhneigingu að skerða athafnafrelsi fjölmiðla. Ekkert hafi komið fram sem réttlæti breytingar á lögum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að mjög hafi færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum dómsmála og vitnum í dómhúsum. Einkum eigi það við um sakborninga í opinberum málum en alkunna sé að þetta valdi þeim, einkum sakborningunum, ama og óþægindum og hafi þeir freistað þess að hylja andlit sín þegar þeir ganga í dómsalinn.

Þá hafi jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr séu opnaðar á meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Víkja má frá lögum með leyfi dómstjóra í einstaka mál enda sé þess þá gætt að myndavélum sé ekki beint að aðilum dómsmáls án þeirra samþykkis.

Arna Schram, formaður Blaðamannfélagsins, segist eiga von á líflegri umræðu um þetta mál hjá blaðamannastéttinni allri enda hafi það hlutverk fjölmiðla að greina frá dómsmálum, verið viðurkennt hingap til. Myndatökur leiki þar stórt hlutverk. Það virðist engin veigamikil rök hníga að því að breyta því núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×