Innlent

Telur ekki heppilegt að afnema samræmda gjaldskrá leigubíla

MYND/Teitur

Samgönguráðherra telur ekki heppilegt að afnema samræmda gjaldskrá leigubifreiða í samræmi við úrskurð Samkeppniseftirlitsins og segist hafa gert eftirlitinu grein fyrir því. Andstaða kom fram við breytingar hjá þingmönnum á Alþingi í dag.

Það var Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, sem vakti athygli á því að úrskurður Samkeppniseftirlitsins ætti að taka gildi eftir nokkrar vikur og spurði samönguráðherra hvað hann ætlaði að gera í málinu. Ögmundur sagði leigubílstjóra lifa í óvissu varðandi breytingarnar og sagði að einhverjar reglur þyrfti að koma til vegna málsins.

Samgönguráðherra sagði leigubíla mikilvægan hluta af almenningssamgangnakerfinu og benti á að fjöldi leyfa til leiguaksturs væri takmarkaður hér á landi. Þess vegna þyrfti að stíga varlega til jarðar í málinu. Hann teldi ekki heppilegt að gefa gjaldskrá leigubifreiða frjálsa og hefði greint Samkeppniseftirlitinu frá því.

Þeir þingmenn sem tóku til máls guldu flestir varhug við hugmyndunum og sögðu ekki víst að breytingarnar yrðu neytendum til hagsbóta eins og væntanlega væri hugmyndin með úrskurði samkeppniseftirlitsins. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar, benti einnig að málið skipti einnig máli vegna þeirra ferðamanna sem hingað kæmi. Þeir þyrftu að geta gengið að skýru kerfi.

Ögmundur Jónasson fagnaði afstöðu ráðherra og annarra þingmanna en benti að bregðast þyrfti við úrskurðinum. Samkeppniseftirlitið væri eflaust að fylgja þeim lögum sem því bæri að fylgja og því vöknuðu spurningar hvort breyta þyrfti þeim lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×