Innlent

Sóttu uppsagnarbréfin í dag

Íslenskir stafsmenn Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sóttu margir í dag uppsagnarbréf sín. Formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja vonast til að það skýrist sem fyrst hvaða starfsmenn halda störfum sínum.

Hundrað og tuttugu félagmenn í Verslunarmannafélagi Suðurnesja sóttu uppsagnarbréf sín í dag. Allir nema einn fengu sex mánaða uppsagnarfrest. Þessi eini er kennari og fékk hann 4 mánaða uppsagnarfrest. En líklega fékk hann styttir uppsagnafrest sökum verkefnaleysis í sumar.

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir mörgum hafa verið létt að fá uppsagnarbréfin þar sem þeir hafi beðið eftir þessu lengi. Viðbrögðin hafi þó verið blendin hjá fólki.

Töluvert hefur verið haft samband við Verslunarmannafélagið í dag og margir komið til að ræða málin. Guðbrandur segir marga nú þegar vera farna að líta eftir nýrri vinnu en hann hvetur alla til að byrja sem fyrst á því.

Líklegt er að einhverjir starfsmenn haldi vinnu sinni og þá líklega fyrir nýjan atvinnurekanda sem verður íslenska ríkið. Það eru þeir sem sinna verkefnum sem áfram þarf að sinna svo sem snjóruðningur, slökkvistörf og eftirlit með starfsemi flugvallarins. Guðbrandur segir mikilvægt að varnarviðræður Íslendinga og Bandaríkjamanna gangi hratt fyrir sig svo línurnar skýrist sem fyrst með það hverjir haldi störfum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×