Innlent

Meirihlut kjósenda Samfylkingar vill aðildarviðræður við ESB

MYND/AP

Mikill meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar vill að teknar verði upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Athygli vekur að ríflega þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er sama sinnis og aðeins um helmingur kjósenda Vinstri grænna er mótfallinn aðildarviðræðum.

Í könnun sem Gallup gerði fyrir Samtök Iðnaðarins dagana 21. febrúar til 3. mars, kemur fram að um 41% landsmanna eru hlynt aðild að Evrópusambandinu, heldur færri en fyrri kannanir hafa sýnt. Þegar afstaða fólks til Evrópusambandsins er hins vegar skoðuð eftir stuðningi fólks við stjórnmálaflokka, kemur í ljós að kjósendur Samfylkingarinnar eru jákvæðastir út í Evrópusambandið. Þegar spurt er um hug fólks til aðildarviðræðna, segjast 72% samfylkingarfólks hlynt viðræðum og helmingur framsóknarmanna styður aðildarviðræður. Athygli vekur hins vegar að 39% sjálfstæðismanna og rúm 35% kjósenda vinstri grænna styðja aðildarviðræður en báðir flokkarnir eru andvígir aðild að Evrópusambandinu.

Þegar spurt er beint um stuðning fólks við aðild að sambandinu, minnkar stuðningur kjósenda Samfylkingarinnar niður í 61% og framsóknarkjósenda í 44%. Enn styður samt um þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna aðild að Evrópusambandinu.

Gallup kannaði einnig hug fólks til upptöku evrunnar sem gjaldmiðils. Samfylkingarkjósendur eru því hlyntastir. 60% þeirra vill taka upp evruna. Ríflega 40% framsóknarmanna styðja að evran verði gjaldmiðill á Íslandi í stað krónunnar, tæp 39% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar og um 28% kjósenda Vinstri grænna.

Þegar andstaða þessara stjórnmálaflokka við aðildarviðræður, beina aðild eða upptöku evrunnar eru skoðuð, kemur í ljós að andstæðingar eru eingöngu í meirihluta í kjósendahópi vinstri grænna, en um 54% þeirra eru andvíg beinni aðild og upptöku evrunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×