Innlent

Vill að Ísland lögfesti barnasáttmálann

MYND/E.Ól.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, vill að Ísland lögfesti barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fullgiltur var árið 1992. Þetta myndi þýða umfangsmiklar lagabreytingar þar sem misræmi er á milli sáttmálans og íslenskra laga.

Barnasáttmálinn gildir hér á landi að þjóðarrétti en þar sem hann stangast á við íslensk lög er lagabókstafurinn rétthærri. Umboðsmaður barna og barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafa bent á margvíslegt misræmi sem þyrfti að laga til að sáttmálinn gilti að fullu hér á landi.

Ágúst nefnir að vernda þurfi betur friðhelgi einkalífs barna og sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Einnig þurfi að samræma ýmis aldursmörk, til dæmis sé hætt að greiða barnabætur við sextán ára aldur þrátt fyrir að lögum samkvæmt séu börn börn fram til átján ára aldurs.

Fordæmi eru fyrir lögfestingu alþjóðasáttmála því Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur löggildi hér á landi. Noregur lögfesti barnasáttmálann fyrir þremur árum og hin Norðurlöndin hafa haft lögfestingu til athugunar í nokkur ár án þess að hafa tekið af skarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×