Innlent

Samfylkingarmenn hlynntastir aðild að Evrópusambandinu

Meirihluti Framsóknarmanna og Samfylkingarmanna vilja að Íslendingar taki upp aðildarviðræður við Evrópusambandið samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Eins við greindum frá í fréttum okkar fyrr í dag þá eru tæplega fjörtíu og eitt prósent landsmanna hlynntir aðild að Evrópusambandinu. Þegar við skoðum hins vegar hvernig hlutfallið skitpist eftir því hvaða flokk fólk ætlar að kjósa kemur í ljós að Samfylkingarmenn eru hlynntastir aðild að sambandinu.

Um 61 prósent þeirra eru hlynntir aðild en aðeins 23,3 prósent þeirra eru andvígir henni. Framsóknarmenn eru einnig frekar hlynntir aðild að Evrópusambandinu en tæp 44 prósent þeirra en eins er athyglivert hve margir þeirra eru óákveðnir eða tæp 27 prósent. Minnstan hljómgrunn fær aðild að Evrópusambandinu hjá Vinstri Grænum en aðeins 27,7 prósent þeirra eru hlynntir aðild. Athygli vekur að þegar skoðuð er niðurstaðan við spurningunni hvort hefja eigi viðræður um aðild að Evrópusambandinu þá hækkar hlutfall þeirra sem eru hlynntir því hjá öllum flokkum. Samfylkingarmenn eru þar þó fremstir í flokki en 72 prósent þeirra vilja hefja viðræður um aðild. Næstir þeim eru svo Framsóknarmenn en helmingur þeirra vilja hefja viðræður sem kemur heim og saman við stefnu formanns flokksins.

Þegar skoðað er hverjir eru hlynntir því að taka upp Evruna sem gjaldmiðil á Íslandi í stað krónunnar kemur í ljós að niðurstaðan er í takt við niðurstöðu aðildar. Samfylkingarmenn eru því hlynntastir eða rúmlega 60 prósent þeirra vilja taka upp evruna sem gjaldmiðil.

Könnunin var gerð fyrir Samtök iðnaðarins á tímabilinu 21. febrúar til 3. mars. Úrtak könnunarinnar var rúmlega 1290 manns á aldrinum 16 til 75 ára og var valið handahófskennt úr þjóðskrá. Svarhlutfall var sextíu og tvö prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×