Innlent

Dagsbrún er allsráðandi í fjölmiðlun á Íslandi segir Lýður Guðmundsson

Aðalfundur Símans hf. var haldinn í dag á Nordica hótel og sagði Lýður Guðmundsson, Stjórnarmaður félagsins að Dagsbrún, móðurfélag 365 og Vodafone, sé nú allsráðandi í fjölmiðlun á Íslandi.

Á fundinum gerðu stjórnarformaður og forstjóri fyrirtækisins grein fyrir starfsemi ársins. Hagnaður af rekstri samstæðu Símans hf. á árinu 2005 var 4.032 m.kr. Til samanburðar var hagnaður fyrir árið 2004 3.091 m.kr. sem er 30% aukning á milli ára. Á fundinum sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Símans m.a. að samþjöppun eignarhalds væri farin að skerða samkeppni og hafa áhrif á velgengni Skjásins. Kaupin á Skjánum hafi verið eina leið Símans til að komast yfir eftirsóknarvert sjónvarpsefni, þar sem 365 ljósvakamiðlar, þá Norðurljós, höfðu slitið viðræðum um aðgang að efni þeirra til dreifingar á ADSL kerfi Símans. Lýður benti á að Dagsbrún sé allsráðandi í fjölmiðlun á Íslandi og geri magnsamninga við bandarísk fyrirtæki um sjónvarpsseríur og kvikmyndir.

Lýður benti einnig á að Dagsbrún, móðurfélag 365 ljósvaka- og prentmiðla og Vodafone, hafi keypt upp fyrirtæki í fjölmiðlum og tengdum rekstri og sé nú allsráðandi í fjölmiðlun á Íslandi. Auk þess að eiga ljósvaka- og prentmiðla hefur félagið með kaupunum á Saga film og Storm þrengt verulega að aðgengi Skjásins að framleiðslufyrirtækjum á íslensku sjónvarpsefni. Einnig hefur Dagsbrún nýverið fest kaup á Senu, sem áður starfaði undir merkjum Skífunnar. Það félag á nánast allan efnisrétt á tónlist og annarri afþreyingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×