Innlent

Löggan ræðir við grunnskólabörn

Foreldrar mörg hundruð reykvískra skólabarna hafa að undanförnu fengið bréf frá lögreglunni, með boði um viðtöl á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Þetta er liður í víðtæku forvarnarátaki, þar sem reynt er að kortleggja hvort og hvernig eiturlyf standa grunnskólabörnum til boða.

Það eru ásamt lögreglunni í Reykjavík, þjónustumiðstöðvar borgarinnar og nokkrir grunnskólar sem standa að forvarnarátakinu. Foreldrum og börnum þeirra, í 8., 9. og 10. bekk, er boðið að koma til viðtals við lögregluna. Unnið hefur verið á svipaðan hátt allt frá árinu 2000.

Áður var hringt í foreldrana, - nú eru hins vegar í fyrsta skipti send út bréf. Farið er eftir skólahverfum, -um fimm hundruð bréf fóru út í Breiðholtinu á dögunum, -og nú hafa foreldrar barna í miðborginni, -Hlíða og Háteigshverfum líka fengið bréf.

Tilgangurinn viðtalanna er að styrkja tengsl lögreglu og íbúa, - hlúa að forvörnum, en síðast en ekki síst, -einfaldlega að kortleggja hvort, hvernig eða hvar, grunnskólabörnum standa fíkniefni til boða. Ekki er þó verið að gera börnin að uppljóstrurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×