Innlent

Ungmenni fá hvorki matar- né kaffitíma

Dæmi eru um að íslensk ungmenni vinni tíu til tólf klukkustunda vaktir í verslunum og stórmörkuðum, án lögbundinna matar- og kaffitíma. Tugir slíkra mála koma á borð VR á hverju ári.

Sextán ára piltur, Jóhann Ingi Guðjónsson, vakti athygli á því í Morgunblaðsgrein í gær, að ungt fólk sem vinnur í verslunum og stórmörkuðum, væri oft á tíðum snuðað um lögbundin réttindi.

Sjálfur vann hann hjá Krónunni, -segist hafa unnið tíu til tólf tíma vaktir, án matartíma eða kaffitíma. Klósettferðir hafi líka verið illa liðnar af yfirmönnum.

Forsvarsmenn Krónunnar, vildu ekki tjá sig vegna þessa í dag. hins vegar sendu þeir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

"Starfsmannastefna fyrirtækisins er og hefur alltaf verið skýr, fyrirtækið fer eftir kjarasamningum í einu og öllu og hefur alltaf átt góð samskipti við stéttarfélög þ.m.t. VR. Af eðlilegum ástæðum getur fyrirtækið ekki rætt málefni einstakra starfsmanna í fjölmiðlum en leggur sig ávallt fram við að eiga góð samskipti við starfsfólk sitt."

En mál Jóhanns Inga er ekkert einsdæmi, -og kvartað hefur verið undan fleiri verslunarfyrirtækjum við VR. Skýringin er líklega hversu ungir margir yfirmenn í fyrirtæknjum af þessu tagi eru. Yfirleitt leysast málin með einu símtali segir formaður VR. Ár hvert berst félaginu alls á annað þúsund kvartana vegna brota á vinnulöggjöfinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×