Innlent

Síminn selur líklega sinn hlut í Kögun

Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands MYND/Vísir

Skoðun, dótturfélag Dagsbrúnar, hefur keypt fimmtíu og eitt prósent hlutafjár í Kögun. Síminn, sem er stærsti hluthafinn í Kögun, hafði sýnt áhuga á að leiða fyrirtækið en mun nú líklega fara út úr fyrirtækinu.

Nokkur átök hafa átt sér stað í kringum Kögun. Síminn og Exista eiga samanlagt um 38% hlut í fyrirtækinu. Hlutur Símans er tæp 27% og var Síminn stærsti hluthafinn. Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símann sagði í samtali við NFS að Síminn hefði haft áhuga á því að leiða fyrirtækið en Síminn hefði samt ekki viljað fara í yfirtöku.

Þrír stjórnendur Kögunar keyptu fyrir skömmu aukið hlutafé í fyrirtækinu og náðu meirihluta í stjórn þess með aðstoð Straums. Skoðun, sem er dótturfyrirtæki, Dagsbrúnar keypti svo í gærkvöldi meirihluta hlutafjár í félaginu, eða 51%. En 365 prent- og ljósvakamiðlar, sem meðal annars reka NFS, er í eigu Dagsbrúnar. Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar, sagði í samtali við NFS að vitað hafi verið að Síminn ætlaði sér að ná meirihluta í stjórn Kögunar og stýra fyrirtækinu, án þess að ráða yfir meirihluta hlutafjár. Þetta hafi farið illa í aðra hluthafa og viðræður við þá hafi endað með því að Dagsbrún keypti meirihluta í félaginu. Gunnar Smári segir engar ráðagerðir um breytingar á félaginu. Þeir Örn Karlsson, stjórnarformaður Kögunar, og stjórnarmennirnir Gunnlaugur Sigmundsson og Vilhjálmur Þorsteinsson verði áfram í stjórn félagsins.

Dagsbrún ætlar að leggja fram yfirtökutilboð til hlutafa Kögunar í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Hluthöfum í Kögun verður boðið að selja hluti sína í félaginu á genginu sjötíu og fimm samkvæmt nánari skilmálum í tilboðsyfirliti sem birt verður innan fjögurra vikna. Forstjóri Símans segir það verð sem boðið er sé gott, og að Síminn muni sennilega þekkjast það. Kaup Skoðunar hafi ekki komið sér á óvart í ljósi þess sem á undan hafi gengið. Búast má við að Exista, sem er stór hluthafi í Símanum, gangi líka að yfirtökutilboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×