Innlent

Orkuveita Reykjavíkur tilbúin að útvega orku í Helguvík

Álversframkvæmdir gætu hafist í Helguvík þegar á næsta ári. Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur hefur tilkynnt forsætisráðherra að Orkuveitan geti komið að orkusölu til stóriðju á Suðurnesjum mun fyrr en áður var talið.

Í umræðum um atvinnumál á Suðurnesjum hefur komið fram síðustu daga að Norðurál treysti sér strax á næsta ári til að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík , sem hæfi rekstur eftir þrjú ár. Til þess þurfi þó 200 megavött af raforku, þar af geti Hitaveita Suðurnesja útvegað 100 megavött fyrir þann tíma en leita þurfi til Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar um það sem á vantar.

Í viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Alcan fyrir tveimur mánuðum skuldbatt Landsvirkjun sig hins vegar til þess að ræða ekki við aðra aðila um orkusölu til stóriðju fyrr en séð yrði hvort samningar næðust um Straumsvík.

Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi leitað til Orkuveitunnar og spurt hvort Orkuveitan geti útvegað viðbótarraforku til stóriðju í Helguvík. Alfreð segist hafa tjáð forsætisráðherra að Orkuveitan sé jákvæð og muni skoða það vandlega hvort hún geti gert þetta og í fljótu bragði virðist ekkert standa í vegi fyrir því.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×