Innlent

Ekki undir bandarískum áhrifum

MYND/Valgarður Gíslason

Geir H. Haarde neitar því að Bandaríkin myndu hafa óeðlileg áhrif á atkvæðagreiðslu Íslands í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ef Ísland næði kjöri. Hann sagði þó að Íslendingar væru ekki einir í heiminum og að ákvarðanir nágranna okkar og bandamanna hafi alltaf áhrif á utanríkisstefnu Íslands að vissu marki. Þetta kom fram á fyrirlestri hans hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Atkvæði Íslendinga væri alltaf fyrst og fremst á ábyrgð okkar sjálfra þrátt fyrir náið samstarf við nágrannalöndin og þá fyrst og fremst Norðurlöndin. Nái Ísland kjöri til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna mun atkvæði okkar í ráðinu verða beitt í þágu mannréttinda og til að viðhalda eða koma á friði í heiminum. Þetta eru þau grundvallarmarkmið sem Ísland hefur stefnt að í sinni utanríkisstefnu og það myndi ekki breytast við aðild að Öryggisráðinu.

Ef Ísland færi inn í Öryggisráðið myndi þurfa að fjölga tímabundið starfsfólki í fastanefndinni og til greina kæmi að setja upp gagnagrunn íslenskra sérfræðinga um öryggis- og alþjóðamál sem hægt væri að leita til. Geir sagði ekki vera farið að vinna í því ennþá að skipa fólk í stöðu fastafulltrúa eða í aðrar stöður í fastanefndinni sem hugsanlega yrði bætt við en að ljóst væri að gríðarlega mikið álag myndi verða á fastanefndinni ef Ísland næði kjöri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×