Innlent

Húsvíkingar vongóðir um álver

Andi Einars heitins Benediktssonar athafnaskálds mun væntanlega svífa yfir vötnum á æskuheimili hans í Gamla Bauki á Húsavík í dag, þar sem stuðningsmenn álvers við Húsavík, vonast til að geta fagnað nýju álveri í héraði síðdegis.

Álfyrirtækið Alcoa mun væntanlega tilkynna það í New York um klukkan þrjú í dag, hvort og þá hvar fyrirtækið vilji reisa álver á Íslandi. Þrír staðir á Norðurlandi eru helst taldir koma til greina, Brimnes í Skagafirði, Dysnes í Eyjafirði, þar sem andstaða virðist fara vaxaandi, og Bakki í grennd við Húsavík, sem telst einna líklegasti staðurinn. Þaðan er skemmst í orkulindir í iðrum jarðar og mikill stuðningur er meðal íbúa við framkvæmdina, nema í Tjörneshreppi, þar sem landgæði einnar bújarðar munu spillast.

Þróist mál í þennan farveg í dag verður framvindan á stigi viljayfirlýsingar í hálft annað ár, en endanleg ákvörðun yrði ekki tekin fyrr en að fengnu umhverfismati. Framleiðsla í fyrsta áfanga gæti svo hafist á árabilinu 2010 til 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×