Innlent

Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar auka þjónustu við innflytjendur

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði kynntu í dag áætlun um aukna þjónustu við íbúa af erlendum uppruna en þeim hefur farið fjölgangi í sveitarfélaginu á síðustu árum. Pólverjar eru fjölmennasti hópur innflytjenda í Hafnarfirði en þar býr einnig fjöldi fólks frá Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og fyrrum Júgóslavíu.

Áætlunin um aukna þjónstu við innflytjendur var kynnt í Pólsku búðinni Stokrotka. Eigandi búðarinnar, María Valgeirsson, á sæti í samráðshópi sem settur var á laggirnar í árslok árið 2004 sem ætlað er að vinna að málefnum innflytjenda og koma með tillögur til að efla þjónustu við innflytjendur. Íslenskunám í samvinnu við hafnfirsk fyrirtæki og upplýsingabæklingur um þjónustu bæjarins er meðal þeirra hugmynda sem eru orðnar að veruleika, en bæklingurinn er útgefinn á fimm tungumálum. Bærinn er auk þess með þjónustusamning við Alþjóðahús en vikulega er boðið upp á viðtalstíma ráðgjafa og lögfræðings Alþjóðahússins í Félagsþjónustunni í Hafnarfirði. Þá er ráðgert að halda alþjóðlega söngvakeppni á Björtum dögum nú í sumar, í samstarfi við Alþjóðahús, auk þess sem unnið er að tillögum um móðurmálskennslu fyrir börn innflytjenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×