Innlent

Björgunarstarf hefði vart getað gengið betur

Aðstæður á slysstað á Hofsjökli voru mjög erfiðar. Björgunarstarf gekk þó eins vel og mögulegt var miðað við aðstæður, segir Ari Jóhannes Hauksson sem stjórnaði aðgerðum við sprunguna þar sem jeppinn fór niður.

Fjöldi björgunarsveitarmanna var kallaður til vegna slyssins á Hofsjökli og fimmtíu tóku þátt í björgunaraðgerðum uppi á jökli. Auk þeirra voru lögreglumenn og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn að störfum vegna slyssins, þeirra á meðal Ari Jóhannes Hauksson, sem stjórnaði aðgerðum við sprunguna á Hofsjökli.

"Við fórum með dönsku þyrlunni þrír aðilar héðan úr Reykjavík og lendum uppi á jökli hálfsex. Þá kom strax í ljós að þetta voru gríðarlega hættulegar og erfiðar aðstæður sem kröfðust mikils mannskaps," segir Ari Jóhannes og er þeirrar skoðunar að björgunarstarfið hefði ekki getað gengið betur miðað við aðstæður.

Ari segir aðstæður mjög erfiðar. "Þetta er sprungubelti og gríðarlega stórar sprungur, ætli ég geti ekki sagt þriggja til fjögurra metra breiðar og þar sem bíllinn fer niður eru þetta 20 metrar." Ari telur að það hafi skipt miklu fyrir gang mála hversu fjölmennt lið var kallað út. "Það komu sérfræðingar á öllum sviðum að þessu og þetta gekk eins vel og hægt er miðað við aðstæður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×