Innlent

Víkur úr skotlínunni

Ólína Þorvarðardóttir lýkur skólaárinu en lætur síðan af störfum sem skólameistari.
Ólína Þorvarðardóttir lýkur skólaárinu en lætur síðan af störfum sem skólameistari. MYND/GVA
Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, segist ekki hafa séð aðra leið út úr deilum sem hafa umlukið skólann en að hætta störfum. Hún vonar að þá komist menn að því hver hin raunverulega meinsemd sé.

Ólína Þorvarðardóttir hefur ákveðið að láta af starfi skólameistara við Menntaskólann á Ísafirði þegar skipunartími hennar rennur út í lok þessa skólaárs. Hún segist hafa tekið þessa ákvörðun að yfirveguðu ráði og með velferð sína og skólans að leiðarljósi. Miklar deilur hafa staðið í skólanum, milli Ólínu og nokkurra kennara, og segist hún ekki hafa séð hvernig hún fengi leyst þann vanda.

"Ég hef að vel athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að losa skólann úr þeim heljargreipum átaka sem honum hefur verið haldið í að undanförnu," segir Ólína. Hún segist því hafa ákveðið að standa upp úr stól skólameistara "og víkja úr skotlínu í þeirri von, meðal annars, að menn átti sig á hver er hin raunverulega meinsemd inni í skólanum og geti tekið á því.

Ólína segir sáttatilraunir í skólanum í uppnámi og að hvort tveggja menntamálaráðuneytið og skólanefnd séu í raun ráðþrota gagnvart deilunni. Hún segist ekki hafa fengið nægan tilstyrk frá ráðuneyti og skólanefnd til að leysa deiluna.

Á vef Mannlífs er sagt að yfirmenn í menntamálaráðuneytinu hafi reynt að fá Ólínu til að láta af starfi og boðið henni starfslokasamning. Sjálf segir hún þetta rangt, frumkvæðið að starfslokum hennar sé alfarið hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×