Innlent

Ný gögn í Baugsmálinu

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, ræðast við í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, ræðast við í Héraðsdómi Reykjavíkur. MYND/Einar Ólason

Uppnám varð við aðalmeðferð í Baugsmálinu svo kallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar ákæruvaldið lagði fram ný gögn í málinu sem verjendur höfðu ekki séð áður og ákæruvaldið fékk fyrst í hendurnar í gær. Áætlað er að vitnaleiðslur yfir öllum ákærðu í málinu fari fram í dag.

Gögnin höfðu borist frá Ivan Motta, bílasala í Bandaríkjunum, og eru reikningar fyrir tveimur af fjórum bifreiðum sem fluttar voru inn á árunum 1998 til 2000 og deilt er um. Forsvarsmönnum Baugs er meðal annars gefið að sök að hafa flutt bílana inn án greiðslu tilskilinna gjalda.

Vegna reikninganna kemur fram breyting í bókun ákærunnar og verður stuðst þá á morgun þegar vitnaleiðslur yfir Ivan Motta hefjast fyrir dómi. Verjendur höfðu ekki séð gögnin fyrr en þau voru lögð fyrir í morgun og fengu því tíu mínútna hlé til að kynna sér þau.

Verjendur mótmæltu síðan framlagningu þeirra en gerðu ekki kröfu um að aðalmeðferð yrði frestað þar til niðurstaða fengist í þessum hluta málsins.

Vitnaleiðslur yfir Jón Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, hófust síðan en áætlað er að allir ákærðu í málinu beri vitni fyrir dómi í dag.

Þeir ákæruliðir sem eftir standa í Baugsmálinu lúta að meintum brotum á almennum hegningarlögum, tollalögum og lögum um ársreikninga. Forsvarsmönnum Baugs er meðal annars gefið að sök að hafa sett fram ársreikninga á rangan og villandi hátt á þriggja ára tímabili.

Jón Ásgeir var spurður í þaula um tengsl Baugs við dreifingarfyrirtækið Aðföng og fjárfestingarfélögin Gaum og Fjárfar og kaup Baugs og Gaums á birfreiðum frá Bandaríkjunum í gegnum Jón Gerald Sullenberger. Jón Ásgeir sagðist ekki hafa komið að bílakaupunum og ekki komið nálægt gerð innflutningsskýrslna vegna bifreiðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×