Innlent

Þoturnar eftir en þyrlurnar á brott?

MYND/Teitur Jónasson

Svo gæti farið að björgunarþyrlur varnarliðsins yrðu fluttar á brott en herþotur Bandaríkjamanna yrðu hér áfram. Valur Ingimundarson, sagnfræðingur, fullyrðir að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að skilja að rekstur á þyrlum og þotum til þess að svo megi verða en það hafi ekki verið gert hingað til.

Í nýrri grein sem birtist í bresku fræðiriti um öryggis- og varnarmál á dögunum fjallar Valur Ingimundarson, sagnfræðingur, um stöðu varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Hann segir Bandaríkjamenn ekki telja þörf á herlið hér, engin ógn steðji að. Deilt hefur verið um orustuþotur varnarliðsins og ekki síst um kostnaðarskiptingu þegar reynt hefur verið að semja um framtíðar fyrirkomulag varnarsamstarfsins. Í október var fundi óvænt slitið þegar deilt var um krónur og aura .

Engir fundir hafa verið boðaðir með Bandaríkjamönnum síðan þá. Íslendingar eru sagðir reiðubúnir til að greiða fyrir rekstur flugvallarins en Bandaríkjamenn vilja að greitt verði fyrir hernaðaraðstöðuna. Valur segir ljóst að viðræður um kostnaðarskiptinguna verði erfiðar.

Til greina komi þó sú málamiðlun, sem hafi verið rædd, að Íslendingar tækju að sér hlutverk björgunarþyrlanna sem hér séu. Bandaríkjamenn telji þær í raun og veru mikilvægari en þoturnar í tengslum við aðgerðir í Írak og Afganistan. Ef svo yrði myndu Íslendingar væntanlega þurfa að greiða fyrir þann rekstur. Þar með væri mögulegt að þoturnar yrðu hér áfram en þyrlurnar yrðu færðar.

Valur segir ljóst að staðan sé að einhverju leyti breytt nú þegar Davíð Oddsson er hættur afskiptum af stjórnmálum. Málið hafi verið mjög persónugert. Bandaríkjamenn og Bush Bandaríkjaforseti sjálfur hafi ekki viljað að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, kæmi illa út í þessu máli. Hann þyrfti helst að vera eins konar sigurvegari.

Valur segir erfitt að meta hvaða áhrif þessi breyting hafi á áframhaldandi viðræður. Hann bendir á að flugherinn hafi enn ekki tekið við rekstri varnarliðsins af flotanum sem sé að mestu farinn. Bandaríkjamenn vilji ekki taka formlega ákvörðun um þá breytingu fyrr en framtíðar fyrirkomulag samstarfsins hafi verði ákveðið. Þá verði málinu vísað til Bush Bandaríkjaforseta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×