Erlent

ESB til varnar Danmörku

Reiðir Írakar mótmæla birtingu skopmynda í Jótlandspóstinum.
Reiðir Írakar mótmæla birtingu skopmynda í Jótlandspóstinum. Mynd/AP

Evrópusambandið kemur Danmörku til varnar og mun leita til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hvetji stjórnvöld í arabaríkjum til þess að danskar vörur verði sniðgengnar. Danskar vörur hafa þegar verið fjarlægðar úr hillum í verslunum margra arabískra ríkja í mótmælaskyni við birtingu skopmynda af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum.

Í tilkynningu frá Peter Mandelson, sem fer með málefni verslunar og viðskipta í framkvæmdastjórn ESB, til viðskiptaráðherra Sádí-Arabíu segir að í sniðgöngu á dönskum vörum felist einnig að vörur ESB séu sniðgengnar. Hvetji stjórnvöld til slíkrar sniðgöngu muni ESB taka málið upp í Alþjóðaviðskiptastofnuninni segir í tilkynningunni.

Tilkynningin kemur í kjölfar þess að Arababandalagið og OIC, Organization of Islamic Conference, segjast munu krefjast ályktunar Sameinuðu þjóðanna þess efnis að árásir á trú verði bannaðar, og jafnvel að Danmörku verði refsað með einhverjum hætti biðjist stjórnvöld þar í landi ekki afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×