Erlent

Sjö látnir í óveðri í Tennessee

Sjö fórust í miklu óveðri sem gekk yfir Tennessee-ríki Bandaríkjanna í gærkvöld og annar eins fjöldi slasaðist illa. Tugir hafa þá farist í slíkum stormviðrum undanfarna viku.

Þrumuveður og hvirfilbyljir eru algengir á þessum slóðum í Bandaríkjunum og er óhætt að segja að bylurinn sem gekk yfir Tennessee í gær hafi verið af stærri gerðinni. Vindurinn blés húsum í burtu eins og spilaborgum og tré rifnuðu upp með rótum. Bílar féllu víða um koll á hraðbrautum ríkisins og ollu þeir að vonum nokkrum töfum á umferð. Mikil ofankoma fylgdi veðrinu og voru sum snjókornanna sem féllu úr biksvörtum skýjunum á stærð við apppelsínur.

Verst var ástandið í Sumner-sýslu en þar dóu sjö manns þegar hús þeirra hrundu til grunna. Í Nashville og í fleiri nálægum byggðum gerðu hvirfilbyljir einnig óskunda en tjónið var ekki nándar nærri eins mikið þar. Þar sem rafmagns- og símalínur slitnuðu í veðurofsanum varð allt björgunarstarf mun erfiðara. 24 fórust í hvirfilbyljum í ríkinu um síðustu helgi og eyðilögðust þá yfir þúsund hús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×