Erlent

Lit­háar lýsa yfir neyðar­á­standi vegna belgja frá Belarús

Kjartan Kjartansson skrifar
Litháískur landamæravörður virðir fyrir sér veðurbelg sem var notaður til að smygla vindlingum frá Belarús. Belgjunum er einnig talið ætlað að valda truflunum og glundroða í Litháen.
Litháískur landamæravörður virðir fyrir sér veðurbelg sem var notaður til að smygla vindlingum frá Belarús. Belgjunum er einnig talið ætlað að valda truflunum og glundroða í Litháen. AP/landamæraeftirlit Litháens

Stjórnvöld í Litháen lýstu yfir neyðarástandi í dag vegna öryggisógnar sem þau telja stafa af veðurbelgjum sem svífa yfir landamærin frá Belarús, bandalagsríki Rússlands. Ítrekað hefur þurft að loka flugvellinum í Vilníus vegna belgjanna. 

Belgirnir eru sagðir ógna mannslífum, eignum og umhverfi í yfirlýsingu litháísku ríkisstjórnarinnar. Þeir hafi jafnframt borið smyglvarning frá Belarús. Þannig séu belgjasendingarnar tegund af svonefndum blönduðum hernaði.

„Neyðarástandi var lýst yfir vegna truflana á borgaralegu flugi og vegna áhyggna af þjóðaröryggi. Stofnanir þurfa að vinna nánar saman,“ sagði Vladislavas Kondratovicius, innanríkisráðherra, á ríkisstjórnarfundi þar sem ákveðið var að gefa yfirlýsinguna út.

Belarús er náið bandalagsríki stjórnvalda í Kreml. Rússar eru sakaðir um að standa að baki ítrekaðs drónaflugs við evrópska flugvelli á undanförnum vikum. Nú síðast stefndu tveir óþekktir drónar að flugvél sem flutti Úkraínuforseta til Írlands í síðustu viku.

Veðurbelgirnir frá Belarús eru notaðir til þess að smygla vindlingum yfir landamærin. Litháísk stjórnvöld telja aftur á móti að nágrannar þeirra beiti þeim vísvitandi til þess að valda röskunum.

Lithaísk stjórnvöld sökuðu Rússa fyrr á þessu ári um að hafa skipulagt hryðjuverk þar sem eldur var lagður að IKEA-verslun í Vilníus í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×