Innlent

Ríkisskattstjóri staðfestir að skattar hafa hækkað

Ríkisskattstjóri staðfestir tölur Landssambands eldri borgara um að skattbyrði þeirra sem hafa lægst laun eða ellilaun hafi hækkað síðustu ár. Þetta kemur til af því að skattleysismörk hafa ekki fylgt vísitölu neysluverðs eða launaþróun í landinu að sögn hagfræðings Landssambands eldri borgara.

Ef raungildi hundrað þúsund króna mánaðarlauna er reiknað samkvæmt vísitölu neysluverðs aftur til ársins 1988 sést að þá féll sú upphæð undir skattleysismörk og því var enginn tekjuskattur lagður á þau laun. Síðan hefur þetta hækkað jafnt og þétt og í dag greiða ellilífeyrisþegar tæp níu og hálft prósent af þessari sömu upphæð í tekjuskatt. Þetta þýðir að lægra hlutfall launa fellur í dag undir skattleysismörk, þ.e. skattleysismörk eru lægri að raungildi heldur en þau voru þegar þau voru árið 1988.

Einar Árnason, hagfræðingur Landssambands eldri borgara, segir flestalla sérfræðinga, hvort sem er í Háskóla Íslands, hjá Ríkisskattstjóra eða annars staðar, vera sammála þeim niðurstöðum að skattbyrði hafi hækkað á þeim lægst launuðu. Það sé aðeins Fjármálaráðuneytið og aðrir stjórnarliðar sem haldi því fram að skattar hafi lækkað. Hann segir það einungis eiga við um hálaunafólk en hinir sem fái lægri laun séu verr settir en áður. Í útreikningum fjármálaráðuneytisins sé miðað við fasta krónutölu í stað þess að launatala sé látin hækka í réttu hlutfalli við vísitölu neysluverðs, sem sé rökleysa, en að þannig takist þeim að fá út þær niðurstöður sem þeir vilji.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×